Upphaf rækjuveiða

Þættir úr sögu rækjveiða og rækjuvinnslu á Ísafirði

Rækjuveiðar og rækjuvinnsla á Íslandi eiga upphaf sitt við Ísafjarðardjúp. Það voru tveir Norðmenn, búsettir á Ísafirði sem voru upphafsmenn rækjuveiða við landið. Ole G. Syre og Símon Olsen og fluttu hingað til lands þekkingu á rækjuveiðum frá heimaslóðum sínum á Karmöy við vesturströnd Noregs.

                 
Fystu tilraunina til rækjuveiða gerðu þeir árið 1924. Þá hafði Syre keypt vélbátinn Hrönn í Noregi og Simon Olsen kom með bátnum hingað til lands. Með bátnum kom hingað rækjunót, sem þeir reyndu með góðum árangri í Djúpinu. Veiðarnar féllu niður vegna þess að enginn markaður var fyrir þessa nýjung hér á landi. Íslendingar kölluðu tengundina kampalampa, en fljótlega var farið að kalla hana rækju að hætti Norðmanna.


Nokkrum árum síðar fékk Sveinn Sveinsson útgerðarmaður á Ísafirði rækjunótina keypta og prófaði hana með góðum árangri. Náði hann að selja nokkuð af soðinni rækju beint frá skiphlið í farþegaskipið Dronning Alexandrine og fleiri skip sem komu á Ísafjörð haustið 1930.


Það var svo árið 1935 sem samfelldar rækjuveiðar hófust í Ísafjarðardjúpi. Aftur voru þar á ferð Símon Olsen og Ole G. Syre á bátnum Karmöy. Þeir fengu nýja rækjuvörpu frá Noregi og öfluðu vel. Enn reyndist erfitt að koma rækjunni í verð, en þeir félagar náðu að selja eitthvað í búðir Sláturfélags Suðurlands í Reykjavík. Íslendingar voru tortryggnir á þessa nýjung, sem líktist helst risa-marflóm. Í blaðinu Skutli á Ísafirði var auglýst að hægt væri að sjá rækju í útstillingarglugga Kaupfélagsins og kaupa hana nýja. „Ætti fólk ekki að láta útlit skepnunnar hræða sig, heldur herða upp hugann og smakka,“ sagði blaðið.


Af því tilefni skrifaði Hannibal Valdimarsson ritstjóri Skutuls: „Íslendingar kunna yfirleitt ekki að notfæra sér nema algengustu og ódýrustu fisktegundir. Þeir vilja ekki veiða anna sjávarafla en þann, sem hægt er að rífa upp í skipsförmum á stuttum tíma. En þetta verður að breytast. Ísland liggur umkringt bestu fiskimiðum heims. Íslendingar verða því að verða forustuþjóð um notkun þeirra auðæfa sem hafið geymir.“ (Skutull 3. ágúst 1935 „Ný veiðiaðferð.“)


Fyrsta rækjuverksmiðjan

Á kreppuárunum stuðluðu stjórnvöld að nýjungum í veiðum og vinnslu sjávarafurða. Jafnaðarmenn, sem þá stýrðu Ísafjarðarkaupstað, ákváðu að bærinn skyldi sjálfur setja upp rækjuvinnslu með stuðningi ríkisins, frekar en að fela það í hendur einkaaðilum. Rækjuverksmiðja Ísafjarðar tók til starfa 23. júní 1936 í húsnæði í Neðstakaupstað. Þeir Ólsen og Syre sáu um að afla verksmiðjunni hráefnis og höfðu þá fundið gjöful rækjumið í Hestfirði. Rækjan var pilluð, lögð í dósir og soðin niður.

 

Verksmiðjustjórar voru ráðnir Þorvaldur Guðmundsson, sem síðar var kenndur við fyrirtæki sitt Síld og fisk, og Tryggvi Jónsson frá Akureyri, sem stofnsetti síðar niðusuðuverksmiðjuna Ora. Framkvæmdastjóri var Gunnar Andrew. Sumarið 1936 störfuðu 50 manns við rækjuvinnsluna, flest stúlkur sem unnu við pillun og niðurlagningu rækjunnar í ákvæðisvinnu.


Þorvaldur Guðmundsson var sendur í söluferð til Danmerkur og þangað var megnið af framleiðslunni selt, þó nokkuð færi á markað innanlands. Til að ýta undir söluna hér heima birti Skutull þrjár uppskriftir af rækjuréttum frá ungfrú Helgu Sigurjónsdóttur: Rækjubrauð með mæjonesi, rækjur með makkaróní og rækjur með rísrúllettum.


Næstu ár hófu fleiri bátar rækjuveiðar í Djúpinu og lögðu upp afla til niðursuðuverksmiðjunnar. Bestu miðin voru í Hestfirði, Seyðisfirði og Álftafirði, en síðar voru helstu rækjumiðin í Skötufirði og fyrir innan Ögurhólma. Veturinn 1938 var veiðin í Djúpinu treg og fóru þá þrír bátar til veiða í Arnarfjörð. Gekk veiðin þar vel og var aflinn fluttur til vinnslu á Ísafirði. Í kjölfarið tóku Arnfirðingar að stunda rækjuveiðar og Gísli Jónsson setti á fót Niðursuðuverksmiðju á Bíldudal.


Rekstur rækjuverksmiðjunnar var ekki án erfiðleika. Rækjuveiðarnar voru árstíðabundnar og erfiðleikum bundið var að koma framleiðslunni á markað erlendis. Hugmyndir voru uppi um að sjóða niður fleiri tegundir matvæla til að nýta tæki og mannskap verksmiðjunnar betur. Haustið 1939 ákvað bærinn að selja rækjuverksmiðjuna. Nýir eigendur voru Jón Kjartansson eigandi sælgætisverksmiðjunnar Víkings í Reykjavík og fleiri. Stofnuðu þeir Niðursuðuverksmiðjuna hf. og var Böðvar Sveinbjörnsson verkstjóri. Böðvar stýrði Niðursuðuverksmiðjunni um áratugaskeið og síðar Eiríkur sonur hans. Markaðir lokuðust á stríðsárunum og þá var tekið til við að sjóða niður aðrar vörur svo sem síld, hrogn, fiskibollur og grænar baunir. Niðursuðuverksmiðjan flutti í nýtt húsnæði á Torfnesi árið 1955 og var þá Böðvar orðinn aðaleigandi fyrirtækisins.


Nýjar verksmiðjur – fleiri bátar

Eftir stríð hófust rækjuveiðar á ný og nokkrum árum síðar tók rækjuiðnaðurinn stökk, með fjölgun báta og nýjum verksmiðjum. Smærri vélbátar sem áður sóttu á línu á veturna, Dísirnar og Stjörnurnar, fóru nú að stunda rækjuveiðar á haustin og fram á vetur. Sjómenn og netagerðarmenn þróuðu rækjutrollið og náðu betri tökum á veiðiaðferðinni. Miðin virtust óþrjótandi. Nýjar verksmiðjur voru stofnaðar og vélvæðingin hélt innreið sína.


Ole G. Syre og sonur hans Gabriel stofnsettu árið 1949 niðursuðuverksmiðjuna Pólar við Mjósundin á Ísafirði. Tveim árum síðar lést Syre og fyrirtækið Guðmundur & Jóhann eignaðist verksmiðjuna. Þar á bakvið voru Jóhann Jóhannsson og Guðmundur Karlsson. Þeir starfræktu niðursuðu næstu árin og voru fyrstir til að setja upp rækjupillunarvélar árið 1959. Vélarnar voru settar upp í Pétursborg eða Ásgarði við Hnífsdalsveg, en þar hafði löngu áður verið starfrækt fyrsta niðursuðuverksmiðja á Íslandi á árunum 1907-1912. En rækjuvinnsla hefur alltaf verið sveiflukennd og 1964 varð fyrirtæki Guðmundar og Jóhanns gjaldþrota og vélarnar voru seldar til Bíldudals.


Magnúsína Olsen, kona Símonar, og sonur þeirra Ole N. Olsen hófu að vinna rækju af Karmöy í kjallara við Tangagötu veturinn 1957-1958. Létu þau frysta rækjuna í Norðurtanganum og seldu í verslanir í Reykjavík. Símon Olsen fórst á bát sínum Karmöy ásamt Kristjáni syni sínum við rækjuveiðar í Mjóafirði árið 1961, en fjölskyldan hélt áfram rekstrinum. Niðursuðuverksmiðja Ole N. Olsen byggði verksmiðjuhús við Sundstræti árið 1959 og þar voru settar upp pillunarvélar fjórum árum síðar.


Nýjar vinnslur voru settar á fót utan Ísafjarðar. Björgvin Bjarnason setti upp rækjuverksmiðju á Langeyri við Ísafjarðardjúp árið 1959 og keypti tvær pillunarvélar. Einn bátur frá Súðavík og sex bátar frá Ísafirði lögðu upp rækju þar í byrjun. Björgvin starfrækti verksmiðjuna í tólf ár, en þá tók Frosti hf. við rekstrinum.


Sigurður Sv. Guðmundsson hóf að vinna rækju í litlu húsi við Hnífsdalsána árið 1959. Rækjuvinnslan í Hnífsdal tók upp vélpillun árið 1970 og flutti skömmu síðar í rúmgott húsnæði á Stekkum í Hnífsdalsvíkinni.


Einar Guðfinnsson hf verkaði rækju í Bolungarvík. Fyrstu árin lagði aðeins einn bátur upp í Víkinni. Það var Frægur Guðmundar Rósmundssonar. Um 1970 tók EG upp vélpillun og nokkrum árum síðar voru rækjubátarnir í Bolungarvík orðnir um tugur.


Á Ísafirði byrjaði Þórður Júlíusson rækjuvinnslu í Vinaminni við íbúðarhús sitt við Seljalandsveg árið 1965 og setti þar upp pillunarvél fimm árum síðar. Hann var oftast með þrjá báta í viðskiptum. Þá var ný rækjuvinnsla stofnuð árið 1970 af eigendum sjö rækjubáta, Rækjustöðin hf, hóf hún starfsemi í Edinborgarhúsinu, sem var í eigu Kaupfélagsins, og varð fljótlega stærsta rækjuvinnslan við Djúp.


Rækjupillunarvélarnar ýttu smám saman handpilluninni úr vegi. Vélarnar juku afköst verksmiðjanna og fækkuðu um leið starfsfólki. Þá varð útgerð rækjubátanna stöðugri, aflinn jókst og föst skipan komst á veiðar og vinnslu. Um 1970 var rækjuiðnaðurinn orðinn einn af hornsteinum atvinnulífs í bæjum og þorpum við Ísafjarðardjúp. Á Ísafirði voru fjórar rækjuvinnslur starfandi, Niðursuðuverksmiðjan hf., Ole N. Olsen, Rækjustöðin og Vinaminni. Auk þeirra var rækjuverksmiðjan í Hnífsdal, EG í Bolungarvík og vinnslan á Langeyri. Alls voru því 7 rækjuvinnslur við Ísafjarðardjúp á þessum tíma. Auk þess voru rækjuveiðar stundaðar í Arnarfirði og á Húnaflóa og rækjuvinnslur starfandi á Bíldudal og Hólmavík. Niðursuðuverksmiðjan, Óli N. Olsen og verksmiðjan á Langeyri suðu þá enn niður rækju, en frystingin var að taka yfir og í Hnífsdal og Bolungarvík var eingöngu unnin fryst rækja.


Stjórn rækjuveiða: Fyrsta kvótakerfið

Fjölgun báta við rækjuveiðar leiddi til aukins afla á sjötta áratugnum. Hámarki náði sóknin vertíðina 1959-1960 þegar veiddust 1.000 tonn. Bátarnir voru þá orðnir 18-20 sem stunduðu veiðarnar. Haustið 1961 datt veiðin niður og var áfram mjög léleg næstu ár. Bæjaryfirvöld lýstu miklum áhyggjum af framtíð rækjunnar, sem útvegaði þá 30-40 mönnum vinnu á sjó og um 120 manns í landi. Rannsóknir á rækjumiðunum höfðu staðið frá árinu 1959, að frumkvæði rækjusjómanna. Tölur sýndu að afli á togtíma hafði minnkað úr 140 kílóum í rúmlega 70 kíló. Aðalsteinn Sigurðsson fiskifræðingur gerði tillögu um takmörkun veiðanna, sem komið var á eftir 1962. Smábátafélagið Huginn var stofnað á Ísafirði árið 1964 og varð sameiginlegur vettvangur rækjusjómanna og útgerðarmanna.


Nýrra miða var leitað. Bátar frá Ísafirði fóru haustið 1960 til Ingólfsfjarðar í leit að rækju og bar það nokkurn árangur. Héldu Ísafjarðarbátar áfram veiðum þar næstu ár, en eftir að fjórir bátar voru hætt komnir á heimleið við Straumnes í desember 1962, dró úr ferðum þeirra norður á Strandir. Næstu ár tóku heimamenn við Húnaflóa að vinna rækju og fóru Ísafjarðarbátar oft norður til veiða þegar ekki var veitt í Djúpinu.


Smám saman tóku stjórnvöld að stýra rækjuveiðunum. Sjávarútvegsráðuneytið og Hafrannsóknarstofnun settu ákveðnar reglur til að takmarka sókn í rækjuna, með því að ákvarða veiðitímabil, fjölda báta og hámarksafla bæði á hvern bát á hvern dag og heildarmagn á vertíð. Vertíðin stóð að jafnaði frá október og fram í apríl, með mánaðarlöngu hléi frá miðjum desember og fram í janúar. Árið 1965 var heildarmagnið sem veiða mátti í Djúpinu 500 tonn, 17 bátar fengu leyfi og máttu veiða 650 kíló á dag.

 

Næstu ár glæddist veiðin á ný og sífellt fleiri bátar fengu leyfi. Árið 1973 fengu 54 bátar leyfi og veiðin fór yfir 3.000 tonn. Eftir það fækkaði bátunum aftur, þegar rækjuverð tók dýfu, einu sinni sem oftar. Nokkru áður höfðu komist á fastar reglur um veiðarnar. Hámarksafli var settur fyrir hvert ár og honum skipt niður á rækjuvinnslurnar. Fjöldi báta sem fengu veiðileyfi var ákveðinn af ráðuneytinu og jafnframt vikukvóti hvers báts og hámarksafli á dag. Auk þess voru settar reglur um hámarksstærð báta, 20 metrar á lengd. Reglur um veiðar rækju á innfjarðarmiðum voru fyrstu kvótareglurnar sem settar voru í sjávarútvegi.


Fleiri veiðisvæði voru könnuð og rækjuvinnslur spruttu upp bæði á Suðurnesjum, við Breiðafjörð og norður við Skjálfanda og Axarfjörð. Mishratt gekk á rækjustofnana á hverju svæði, en víða varð rækjuvinnslan til að efla atvinnulíf á stöðum svo sem Hvammstanga, Grundarfirði og Kópaskeri. Allar veiðar voru háðar leyfum og eftirliti opinberra aðila og veiðitakmörkunum sem Hafrannsóknarstofnun sagði fyrir um. Á áttunda áratug síðustu aldar hófust svo veiðar á úthafsrækju, sem juku nýtingu fjárfestinga í rækjuvinnslu og útflutningsmagn til mikilla muna.


Tími rækjukónganna

Verðsveiflur einkenndu ætíð rækjuútflutninginn. Helstu markaðir voru í fyrstu í Danmörku og síðar á Bretlandi og verðlag á lúxusvöru einsog rækju ætíð háð sveiflum í efnahagslífi og framboði á mörkuðum. Um 1974 lækkaði verðið, þegar mikið framboð af rækju frá Alaska veitti íslensku rækjunni samkeppni. Aukin vélvæðing, hagræðing og veiðar á úthafsrækju leiddi til þess að rækjuvinnslurnar gátu starfað allt árið um kring. Þegar verð hækkaði á ný gekk í garð blómatími rækjuiðnaðurinn.


Rækjuvinnslurnar á Ísafirði byggðu ný og glæsileg vinnsluhús og tóku sífellt í notkun nýjar og fullkomnari vélar. Úthafsrækjan var stærri og verðmeiri en innfjarðarrækjan og markaðir virtust tryggir. Árið 1978 voru 26 skip á úthafsrækjuveiðum og veiðin var 1.700 tonn. Aðeins tveim árum síðar voru veidd 9.960 tonn og þar af var 3.074 tonnum landað á Ísafirði. Sannkallað góðæri ríkti í rækjunni á 9. áratugnum og talað var um rækjukóngana fyrir vestan.


Niðursuðuverksmiðjan hf. reisti nýtt húsnæði við Sundahöfnina árið 1981 við hliðina á Niðursuðuverksmiðju Ó. N. Olsen, sem einnig stækkaði húsnæði sitt. Rækjustöðin reisti þriðja verksmiðjuhúsið við Sundahöfnina og vígði það árið 1990. Aðrar vinnslur bættu bæði aðstöðu og húsakost. Á Ísafirði og í Hnífsdal unnu á þriðja hundrað manns við 5 rækjuvinnslur. Úthafsveiðarnar skiptu sífellt meira máli. Á hverju sumri kom fjöldi vertíðarbáta frá Suðurnesjum og Vestmannaeyjum til að stunda rækjuveiðar á hafinu norður af landinu. Bátarnir voru í föstum viðskiptum við ákveðnar rækjuvinnslur, sem sáu þeim fyrir veiðarfærum og annarri þjónustu. Þannig fylltu útgerðirnar upp í dauðan tíma á sumrin, því síldveiðar voru í lágmarki á þessum tíma. Stærri skip tóku að reyna fyrir sér á úthafsrækjumiðunum og tekið var að senda togara á rækju. Verksmiðjurnar á Ísafirði sameinuðust um leigu á togaranum Hafþóri og Togarafélag Ísafjarðar var endurvakið og gerði út togarann Skutul á rækjuveiðar og miðlaði verksmiðjunum á Ísafirði aflanum. Rækjuverksmiðjurnar eignuðust líka báta eða hlut í skipum, til að tryggja sér hráefni.


Samdráttur og samþjöppun

Síðustu áratugi hafa veiðar á innfjarðarrækju skipt litlu máli miðað við úthafsrækjuveiðarnar og um mörg ár var rækjuveiði í Ísafjarðardjúpi algerlega bönnuð. Rækjuvinnslurnar tóku þegar um 1985 að flytja inn frysta rækju frá fjarlægum miðum til vinnslu hér. Með því móti var hægt að fylla upp í eyður í framleiðslunni og halda mannskap og vélum í vinnu allt árið. Grænlenskir togarar lönduðu sjófrystri rækju hér á landi og flutningaskip báru hingað afla af miðum við Nýfundnaland og Barentshaf. Innflutta rækjan, stundum kölluð rússarækja eða iðnaðarrækja, varð sífellt mikilvægari hráefnislind, þegar veiðar íslenskra skipa á miðunum við Norðurland minnkaði um aldaskiptin.


Árið 1987 lönduðu 211 bátar og skip samtals 35 þúsund tonnum af úthafsrækju. Næsta ár var rækjan sett í kvóta og veiðin ákveðin 23 þúsund tonn. Viðmiðunarárin fyrir kvótann voru árin 1983-1987, þegar rækjuvinnslurnar við Ísafjarðardjúp fengu til sín loðnuskip og vertíðarskip af Suðurnesjum og víðar til að leggja upp afla til vinnslunnar. Verksmiðjurnar fengu enga aflahlutdeild. Hún fór öll á skipin. Góðærinu í rækjunni lauk um 1990, þegar verðið á erlendum mörkuðum tók enn eina dýfuna og flestar rækjuverksmiðjur lentu í erfiðleikum. Mörg fyrirtæki í rækjuvinnslu urðu þá gjaldþrota.


Í næstu uppsveiflu voru það útgerðarfyrirtækin sem fleyttu rjómann af veiðunum, en ekki vinnslan í landi. Á árunum 1994-1998 náðu veiðarnar nýju hámarki þegar aflinn var á milli 50 og 60 þúsund tonn. Þar við bættust veiðar á Flæmingjagrunni frá árinu 1993, sem náðu 21 þúsund tonnum árið 1996. Það ár náðu rækjuveiðarnar hámarki, 89 þúsund tonnum. Stórir rækjutogarar sem frystu aflann um borð, báru uppi stóran hluta veiðanna. Þeir stærstu, svo sem Pétur Jónsson RE og Helga RE, voru gerðir út frá Reykjavík. Árið 1999 hrundi veiðin í 27 þúsund tonn. Á sama tíma fór markaðsverð lækkandi vegna stóraukinna veiða Kanadamanna og olíuverð hækkaði. Afleiðingin varð sú að úthafsveiðarnar dógust hratt saman. Á sama tíma voru nær engar veiðar leyfðar á innfjarðarækju. Á næstu árum lokuðu margar rækjuvinnslur, þar á meðal í Hnífsdal, Bolungarvík og Súðavík.

 

Á Ísafirði stóð ein rækjuvinnsla eftir, en hún fór í gegnum eigendaskipti, oftar en einu sinni, þar til núverandi eigendur tóku við rekstrinum undir nafni Kampa hf árið 2007.   Tengdir aðilar ráða útgerðarfyrirtækinu Birni ehf sem á og gerir út tvö skip á rækjuveiðar, ísfisktogarann Gunnbjörn ÍS 302 (áður Framnes ÍS) og togbátinn Valbjörn ÍS 307.  Þá eiga Kampi ehf og Birnir ehf að jöfnu útgerðarfélagið Sædísi ehf sem á frystitogarann Ísbjörn ÍS 304 sem Birnir ehf gerir líka út. 

 

Árið 2010 voru veiðar á úthafsrækju teknar út úr kvóta og leyfðar frjálsar veiðar með aflahámarki. Síðustu þrjú ár hefur sókn í úthafsrækju aukist verulega, en á sama tíma hefur aflahámarkið minnkað úr 7.000 tonnum í 5.000 tonn. Nú eru reglur um veiðarnar til endurskoðunar og ný stjórnvöld stefna að því að binda úthafsrækjuveiðar aftur í kvóta. Þá vaknar spurningin, á að úthluta samkvæmt veiðireynslu síðustu þriggja ár, svo sem venja er þegar nýjar tegundir eru settar í kvóta, eða fá gömlu kvótahafarnir frá 2009 aftur í hendurnar veiðiheimildir sem þeir nýttu nánast ekkert á árunum 2006-2009.

 

Sigurður Pétursson sagnfræðingur Ísafirði (2013)


Heimildir:

Ásgeir Jakobsson. „Upphaf rækjuveiða hérlendis.“ Ægir 73. árg. 1980, 588-593.

Halldór Hermannsson. „Upphaf og þróun rækjuveiða og –vinnslu á Íslandi.“ Ægir 73. árg. 1980, 67-80.

Ingvar Hallgrímsson. „Upphaf rækjuveiða við Ísland.“ Ægir 86. árg. 1993, 524-529.

Jón Páll Halldórsson. Fiskvinnsla í sextíu ár. Ísafirði 2003.

Kristján Jónsson frá Garðsstöðum. „Niðursuðuverksmiðjur á Ísafirði.“ Ægir 44. árg. 7.-8.tbl. 1951, 189-193.

Sigurður Pétursson. „Ísafjörður – sjávarútvegsbær.“ Ægir 78. árg. 1985, 490-498.

Skutull 3. ágúst 1935, 13. janúar, 1. apríl, 25. júní, 25. júlí og 1. ágúst 1936, 21. febrúar 1937.

Vesturland 7. september 1935, 20. mars 1937.

 

Frekari fróðleikur

Frekari fróðleik um upphaf rækjuveiða við Ísland má finna hér á vef bb.is og einnig hér en þar er um að ræða plaköt af sýningu sem haldin var á vegum Byggðasafns Vestfjarða árið 2003 og hét "Kampalampi í 80 ár".  Sýningin var haldin í tilefni þess að þá voru 80 ár liðin frá því að fyrst var farið að veiða rækju til vinnslu á Íslandi.  

  


KAMPI EHF.

Kampi ehf.
Sindragötu 1
400 Ísafjörður
Sími: 450 4000
Fax: 450 4019Öll réttindi áskilin © Kampi ehf. Sindragötu 1 | 400 Ísafjörður | S: 450 4000 | F: 450 4019 | Hönnun, vefsmíði, forritun: Styx ehf. /M-How